HK Orkumótsmeistari 2025

28.06.2025

Það var lið HK sem sigraði Þrótt frá Reykjavík í úrslitaleik um Orkumótstitilinn í ár. Þessi lið mættust einnig í úrslitaleiknum 2024. Þá fór Þróttur með sigur af hólmi. En sigurinn í dag var torsóttur hjá HK, HK komst yfir í fyrri hálfleik með marki frá Kristófer Aroni Kristjánssyni, en Þrótturum óx ásmeginn eftir því sem líða tók á leikinn og náðu að jafna í síðari hálfleik með marki Jakobs Steins Valdimarssonar. Það þurfti því að framlengja leikinn um 2 * 5 mínútur og þrátt fyrir góð tilþrif tókst liðunum ekki að bæta við mörkum í framlengingunni. Því varð að grípa til vítaspyrnukeppni og það var líkt og peyjarnir hefðu ekki gert annað en að æfa vítaspyrnur því 15 fyrstu spyrnurnar rötuðu í markið en eitthvað varð að láta undan og fór 16. spyrnan í markstöngina og HK því Orkumótsmeistari 2025.

Bæði lið eiga heiður skilinn fyrir frábæran leik. Veðrið lék við mótsgesti og lauk mótinu í glampandi sól. Við vonum því að keppendur fari heima á leið með sól í hjarta og góðar minningar frá mótinu. Upptaka frá úrslitaleiknum kemur inn á vefinn síðar sem og ýmsar upplýsingar.