Viti í Vestmannaeyjum - tökur í Eyjum

07.07.2017

Kvikmyndahópur Sagafilm er búinn að vera við tökur í Vestmannaeyjum frá 21. júní og lauk tökum í Eyjum miðvikudag 5. júli.  Eftir það halda tökur áfram á höfuðborgarsvæðinu. Það eru alls kyns atriði sem eiga að gerast innandyra og auðveldara að setja slíkt upp í alvöru stúdiói.

Fyrir og eftir Orkumótið einbeittu þau sér að útitökum þar sem landslag Eyjanna fékk að njóta sín, en mótsdagana nýttu þau til að fanga keppnina, fjörið og andrúmsloftið  á mótinu.

Tökur í Eyjum hafa tekist mjög vel og það var auðvelt að vinna með kvikmyndahópnum á mótinu sjálfu, því þau voru vel meðvituð um að ekki mætti raska mótinu á neinn hátt.

Það var mikið rætt um kvöldvökuna. Við ræddum kvöldvökuna á fararstjórafundi á miðvikudeginum, áður en kvöldvakan fór fram.  Á fimmtudeginum sendum við líka bréf til allra fararstjóra, þjálfara og liðsstjóra sem voru á netfangalistanum okkar og skýrðum út að kvöldvakan yrði æfing fyrir lokahófið.  Það var rætt að það væri ekki viðeigandi að setja þessar upplýsingar á vefinn, heldur voru fararstjórar beðnir að koma þessum skilaboðum til allra í sínu félagi.  Auðvitað hefðum við getað komið þessum skilaboðum betur frá okkur og Sagafilm verið með þéttari dagskrá á kvöldvökunni og biðjumst við afsökunar á því.

Kvöldvakan gekk mjög vel, við fundum út alla hnökra, þannig að lokahófið gekk frábærlega fyrir sig. Sagafilm talaði um að fá fólk til að sitja lengur vegna upptöku þeirra af verðlaunaafhendingu sem verður í kvikmyndinni, en þetta gekk svo vel á lokahátíðinni að það þurfti ekki að bæta neinum tökum við og við kláruðum lokahófið á tíma!

Við höfum aðeins fengið að skoða efni sem hefur verið tekið upp og það er alveg hægt að fullyrða að það er flottur fótbolti, landslag og glaðir og ánægðir strákar sem sjást þar t.d. í fótbolta, skrúðgöngu, kvöldvöku og lokahófi.

ÍBV þakkar öllum mótsgestum fyrir góða þátttöku í þessu einstaka verkefni . Þetta gekk vonum framar og bíðum við nú spennt eftir forsýningunni hér í Eyjum næsta vor.